Knattspyrnufélag Árborgar er komið í 32-liða úrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. Árborg, sem leikur í 4. deild, sló 2. deildarlið Njarðvíkur úr leik eftir vítaspyrnukeppni á útivelli í 2. umferð keppninnar í dag.
Leikur Árborgar og Njarðvíkur var alvöru bikarslagur. Haukur Ingi Gunnarsson kom Árborg yfir á 22. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik. Njarðvík jafnaði 1-1 með marki eftir hornspyrnu á 55. mínútu og eftir það var leikurinn í járnum og markalaus allt fram á 90. mínútu, þannig að grípa þurfti til framlengingar. Hún reyndist markalaus þannig að Árborg fór aftur í vítakeppni, eins og í 1. umferðinni á móti Augnabliki.
Birkir Pétursson, Haukur Ingi og Aron Freyr Margeirsson skoruðu fyrir Árborg í vítakeppninni, en markvörður Njarðvíkur varði frá Brynjari Elvarssyni. Hins vegar hafði Gabríel Werner Guðmundsson, markvörður Árborgar, varið eina vítaspyrnu Njarðvíkinga og önnur spyrna heimamanna endað úti á bílastæði, þegar komið var að fyrirliða Árborgar að taka fimmtu spyrnuna til þess að tryggja sigurinn. Hartmann Antonsson var ískaldur á punktinum og tryggði Árborg 5-4 sigur.
Dregið verður í 32-liða úrslitin kl. 18 í dag og fulltrúar Suðurlands í pottinum eru Árborg og Selfoss.
Hörkustemmning á Stokkseyri
Það var metmæting á Stokkseyrarvöll þegar Stokkseyri, sem leikur í 4. deildinni, tók á móti 3. deildarliði Reynis frá Sandgerði. Gestirnir reyndust nokkuð sterkari í leiknum og leiddu 0-3 í leikhléi. Seinni hálfleikurinn var opinn og mjög fjörugur. Sigurður Nikulásson minnkaði muninn fyrir Stokkseyri í 1-3 á 65. mínútu en gestirnir voru fljótir að breyta stöðunni í 1-6. Þá skoraði Arilíus Óskarsson 2-6 fyrir Stokkseyri en Reynismenn skoruðu tvö síðustu mörkin og sigruðu 2-8.