Knattspyrnufélag Árborgar vann mikilvægan sigur á Ísbirninum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Stokkseyri gerði jafntefli við Smára.
Árborg og Ísbjörninn mættust á gervigrasinu á Selfossi og þar kom Birkir Pétursson Árborgurum yfir strax á 3. mínútu með skallamarki. Árborg var meira með boltann í fyrri hálfleiknum en Ísbjörninn var stórhættulegur og ógnaði talsvert með snörpum áhlaupum. Staðan var 1-0 í hálfleik og þegar korter var liðið af seinni hálfleiknum kom Sveinn Kristinn Símonarson Árborg í 2-0 með góðu marki. Ísbirnir gefast aldrei upp og fimm mínútum síðar fengu gestirnir vítaspyrnu og minnkuðu muninn úr henni. Það var fast tekist á á lokakaflanum en Árborgarar héngu á sigrinum eftir mikla baráttu. Árborg er í 2. sæti A-riðils með 19 stig en Ísbjörninn í 6. sæti með 9 stig.
Eins og á Selfossi var rok og kuldi á Stokkseyri þar sem heimamenn fengu Smára frá Kópavogi í heimsókn. Veðrið hafði áhrif á leikinn en gestirnir voru fyrri til að skora í fyrri hálfleik eftir klaufagang í vörn Stokkseyrar. Staðan var 0-1 í leikhléi en á 60. mínútu jafnaði Luis Lucas metin fyrir Stokkseyringa. Heimamenn voru sterkari í seinni hálfleiknum og hefðu getað bætt við mörkum en heppnin var ekki með þeim. Lokatölur 1-1 og Stokkseyri er áfram í 4. sæti riðilsins með 13 stig en Smári í 6. sæti með 9 stig.