Lið Árborgar er komið í góða stöðu í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á Létti á Selfossvelli í dag. Liðið er enn taplaust í deildinni.
Tómas Hassing kom Árborg yfir á 10. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Tómas bætti við öðru marki á 65. mínútu og Arnar Freyr Óskarsson kom Árborg í 3-0 þegar komið var fram í uppbótartíma.
Á 97. mínútu leiksins fengu gestirnir svo vítaspyrnu og minnkuðu muninn úr henni, rétt áður en lokaflautið gall.
Þegar ein umferð er eftir í fyrri umferðinni er Árborg í 2. sæti með 13 stig, jafnmörg og topplið ÍH, en Árborg á einn leik til góða. ÍH og Árborg hafa fjögurra stiga forskot á Hamar og Létti sem eru þar fyrir neðan í 3.-4. sæti.