Knattspyrnufélag Árborgar er fallið úr 2. deild karla eftir 0-3 tap gegn Tindastól/Hvöt á heimavelli í kvöld.
Gestirnir voru mun sterkari í fyrri hálfleik en þrátt fyrir það var fyrsta mark leiksins algjörlega uppúr þurru, laust langskot Árna Arnarsonar sem rúllaði í gegnum Árborgarvörnina og framhjá Steinari Stefánssyni markverði. Árborg átti nokkrar skyndisóknir en færin voru fá á báða bóga. Jón Auðunn Sigurbergsson komst næst því að skora þegar hann skaut rétt framhjá eftir eina slíka sókn.
Staðan var 0-1 í hálfleik en ekki voru liðnar nema tvær mínútur af síðari hálfleik þegar tenniskappinn Arnar Sigurðsson bætti við marki fyrir T/H eftir vel útfærða skyndisókn. Árborgarar hresstust nokkuð í síðari hálfleik og áttu bærileg færi á lokakaflanum en góður markvörður gestanna hélt aftur af þeim bláu með góðum markvörslum í þrígang.
Á lokamínútu leiksins kom síðan þriðja mark gestanna eftir langt útspark Stólanna missti miðvörðurinn Andy Pew boltann yfir sig þegar á honum var brotið en dómarinn dæmdi ekkert og Arnar Sigurðsson var sloppinn einn í gegn, kláraði færið auðveldlega og skoraði sitt annað mark.
Þrjár umferðir eru eftir af 2. deildinni en Árborg hefur 11 stig í 11. sæti og á ekki möguleika á að ná Völsungi sem er í 10. sæti með 22 stig.