Knattspyrnufélag Árborgar fékk slæman skell þegar liðið mætti Knattspyrnufélagi Garðabæjar í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur voru 7-2.
Heimamenn komust í 1-0 strax á 9. mínútu og bættu svo við öðru marki um miðjan fyrri hálfleik. Staðan var 2-0 í hálfleik.
Byrjunin í síðari hálfleik hefði ekki getað verið verri fyrir Árborg því að á fyrstu fjórum mínútum síðari hálfleiks fengu þeir á sig tvö mörk og staðan skyndilega orðin 4-0.
Hartmann Antonsson klóraði í bakkann með tveimur mörkum í röð fyrir Árborg á sjö mínútna kafla en KFG skoraði þrjú síðustu mörk leiksins á meðan Árborgarar sáu ekki til sólar.
Þetta er versta byrjun Árborgar frá stofnun félagsins árið 2000 en liðið hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum og er með markatöluna 3-11.