Árborg vann góðan heimasigur á Herði í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Stokkseyri gerði jafntefli við Álafoss á útivelli.
Árborg – Hörður 4-0
Árborg var sterkari aðilinn í leiknum gegn Herði frá Ísafirði en fátt var um færi í fyrri hálfleik. Magnús Hilmar Viktorsson braut ísinn með snyrtilegu marki þegar hann slapp innfyrir á 43. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Það var hart barist í seinni hálfleik en Árborgarar voru mun hættulegri í sínum sóknaraðgerðum og föstu leikatriðin hjá þeim sköpuðu yfirleitt mikinn usla. Gullfótur Sveins Kristins Símonarsonar nýttist vel í hornspyrnum og hann skoraði sjálfur beint úr einni slíkri á 61. mínútu.
Sjö mínútum síðar fengu Árborgarar vítaspyrnu þegar brotið var á Hauki Inga Gunnarssyni en markvörður Harðar gerði vel að verja vítaspyrnu Halldórs Rafns Halldórssonar. Harðarmenn færðu sig upp á skaftið þegar leið á leikinn en Árborg refsaði þeim tvívegis með mörkum úr skyndisóknum. Fyrst var á ferðinni Guðmundur Aðalsteinn Sveinsson á 77. mínútu og á þeirri 85. kórónaði Aron Freyr Margeirsson frábæran leik sinn með marki. Lokatölur 4-0.
Álafoss – Stokkseyri 1-1
Stokkseyringar voru virkilega óheppnir að ná ekki betri úrslitum gegn Álafossi á útivelli í Mosfellsbæ. Eyþór Gunnarsson kom þeim yfir á 15. mínútu með stórkostlegu skoti fyrir utan teig en Álafoss náði að jafna með ódýru marki á 43. mínútu. Stokkseyringar voru sterkari í seinni hálfleiknum og Örvar Hugason skoraði glæsimark þegar tíu mínútur voru eftir en dómari leiksins dæmdi markið af og gaf Stokkseyringum aukaspyrnu. Áfram sótti Stokkseyri og þeir fengu dauðafæri í lokin en inn vildi boltinn ekki og niðurstaðan varð svekkjandi 1-1 jafntefli.
Leikirnir í kvöld voru í 1. umferð deildarinnar. Árborg leikur í D-riðli í sumar en Stokkseyri í B-riðli.