Árborgarar klaufar að klára ekki

Knattspyrnufélag Árborgar tapaði niður tveggja marka forskoti í 2-2 jafntefli við ÍH í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Jöfnunarmark gestanna kom í uppbótartíma.

Árborgarar voru mun sterkari í fyrri hálfleik þó að ÍH hafi átt fyrsta færið en Steinar Stefánsson bjargaði meistaralega í marki Árborgar.

Á 14. mínútu átti Erlingur Ingason skot í stöng og framhjá fyrir Árborg en hann bætti fyrir það fimm mínútum síðar þegar hann skoraði gott mark eftir sendingu af vinstri vængnum.

Árborg komst svo í 2-0 í 28. mínútu. Andy Pew vann boltann af harðfylgi inni í teig eftir hornspyrnu og sendi á Geir Kristinsson sem vippaði boltanum í markmannslaust markið. Mínútu síðar átti Kolbeinn, bróðir Geirs, skalla sem var naumlega varinn yfir markið.

Árborgarar fengu þrjú prýðileg færi til viðbótar áður en ÍH minnkaði muninn í 41. mínútu. Hallur Ásgeirsson, fyrrum leikmaður Selfoss og nokkurra annarra liða, tók þá aukaspyrnu fyrir utan sem hann smurði í skeytin og inn. Hallur átti svo síðasta færi fyrri hálfleiks en Steinar var vel á verði í marki Árborgar.

Staðan var 2-1 í hálfleik eftir fjörugan fyrri hálfleik en sá síðari var nokkuð tíðindaminni. Á 54. mínútu fengu Árborgarar möguleika á að klára leikinn þegar Erlingur slapp einn innfyrir og framhjá markverði ÍH en skaut í stöngina fyrir opnu marki. Eftir þetta var ÍH meira með boltann en Árborg átti hættulegri færi. Síðustu fimmtán mínúturnar féll Árborgarliðið hins vegar mjög aftarlega á völlinn en ÍH skapaði litla hættu upp við mark Árborgar.

Það var svo á 92. mínútu leiksins að ÍH fékk aukaspyrnu úti á hægri kantinum. Hún barst inn í teiginn og eftir hamagang í markteignum þrumaði Óli Kristinsson boltanum í netið af stuttu færi.

Mínútu síðar flautaði dómarinn leikinn af og Árborg situr áfram á botni deildarinnar með 4 stig, eins og Afturelding, og stigi á eftir ÍH.

Fyrri greinFéll af hestbaki og meiddist
Næsta greinHamarsmenn fögnuðu í Njarðvík