Árborg vann í kvöld mikilvægan endurkomusigur á Létti í 4. deild karla í knattspyrnu en liðin mættust á ÍR-vellinum í Breiðholti.
Árborg lenti undir á 23. mínútu en Gunnar Fannberg Jónasson jafnaði metin með glæsimarki af 28 metra færi þegar fjórar mínútur voru til leikhlés.
Staðan var 1-1 í hálfleik en aftur lenti Árborg undir þegar korter var liðið af seinni hálfleik. Tomasz Luba, þjálfari Árborgar, átti þó leynivopn uppi í erminni því tveir leikmenn sem komu af bekknum kláruðu leikinn fyrir Árborg.
Sindri Þór Arnarson jafnaði á 75. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði Hartmann Antonsson glæsilegt skallamark og tryggði Árborg 2-3 sigur.
Árborgarar eru áfram í 2. sæti C-riðilsins, nú með 25 stig, tveimur stigum á eftir Uppsveitum, sem eiga leik til góða annað kvöld gegn Höfnum sem sitja í 3. sæti með 17 stig.