Keppni í 4. deild karla í knattspyrnu hófst í dag þegar Árborg tók á móti KFS frá Vestmannaeyjum í býsna fjörugum leik.
Árborgarar voru einráðir í fyrri hálfleiknum og skoruðu þrjú mörk. Kristinn Sölvi Sigurgeirsson kom þeim yfir með glæsilegu marki á 13. mínútu og skömmu síðar kom Kristinn Ásgeir Þorbergsson boltanum í netið. Kristinn Sölvi var svo aftur á ferðinni á 41. mínútu og Árborgarar leiddu 3-0 í hálfleik.
Leikurinn snerist algjörlega við í seinni hálfleiknum. Árborgarar voru á hælunum og slakur varnarleikur þeirra varð til þess að KFS minnkaði í 3-2 á fyrstu tíu mínútunum. Fjörið var þó bara rétt að byrja og á síðustu tuttugu mínútunum voru skoruð fjögur mörk. Árborg fékk vítaspyrnu á 72. mínútu þegar brotið var illa á Kristni Sölva. Þorsteinn Daníel Þorsteinsson fór á punktinn skoraði af miklu öryggi og hann lagði síðan upp fimmta mark Árborgar sjö mínútum síðar með glæsilegri fyrirgjöf sem Kristinn Ásgeir stangaði í netið.
Staðan orðin 5-2 en Eyjamenn voru ekki hættir og þeir bættu við tveimur mörkum á síðustu tíu mínútunum, þar sem Árborgarar sváfu illilega á verðinum. Lokatölur 5-4 og Árborg byrjar á sigri en liðinu er spáð efsta sætinu í spá fotbolti.net.
Fyrsta umferðin heldur áfram á morgun en þa heimsækir Hamar RB í Reykjaneshöllina klukkan 18:00.