Lið Selfoss U tapaði óvænt fyrir botnliði Fjölnis í 1. deild karla í handbolta í kvöld, 29-30. Þetta var fyrsti sigur Fjölnis í vetur.
Fjölnismenn voru skrefinu á undan allan fyrri hálfleik en Selfyssingar náðu að komast yfir með ágætum kafla á síðustu mínútum hálfleiksins. Annars var frammistaða Selfoss arfaslök, sérstaklega í sóknarleiknum sem var klaufalegur og hægur. Staðan var 16-15 í hálfleik.
Fjölnismenn náðu fljótlega þriggja marka forskoti í seinni hálfleik en munurinn varð mestur fjögur mörk, 24-28, þegar rúmar sex mínútur voru eftir af leiknum. Selfyssingar minnkuðu muninn og fengu næga möguleika til að svara almennilega fyrir sig en sóknir liðsins runnu ítrekað út í sandinn. Lokatölur 29-30.
Þetta var fyrsti sigur Fjölnis í deildinni í vetur og leikmenn liðsins fögnuðu gríðarlega í leikslok.
Eyþór Lárusson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Óskar Kúld Pétursson skoraði 5 og Andri Már Sveinsson 5/3. Rúnar Hjálmarsson og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu báðir 3 mörk, Trausti Eiríksson og Atli Einarsson 2 og þeir Sigurður Guðmundsson, Anton Traustason og Sveinbjörn Jóhannsson skoruðu allir eitt mark.
Markvarslan var ekki sterkasta hlið Selfyssinga í kvöld en Helgi Hlynsson varði 7 skot í marki Selfoss og Andri Einarsson 3.