Selfoss heimsótti Ármann í fyrsta leiknum í 8-liða úrslitum 1. deildar karla í körfubolta í kvöld. Ármann sigraði 109-93 og leiðir 1-0 í einvíginu.
Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en í 2. leikhluta tóku Ármenningar leikinn yfir og leiddu í leikhléi, 66-46. Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleiknum en Selfyssingar náðu ekki að saxa á forskot Ármanns að neinu ráði.
Follie Bogan var stiga- og framlagshæstur Selfyssinga í kvöld með 25 stig og 7 stoðsendingar. Vojtéch Novák var sömuleiðis öflugur með 19 stig og 12 fráköst.
Liðin mætast næst í Vallaskóla á mánudagskvöldið en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í 4-liða úrslitin.
Ármann-Selfoss 109-93 (31-29, 35-17, 21-22, 22-25)
Tölfræði Selfoss: Follie Bogan 25/6 fráköst/7 stoðsendingar, Vojtéch Novák 19/12 fráköst/5 stoðsendingar, Gísli Steinn Hjaltason 13, Tristan Máni Morthens 10, Ari Hrannar Bjarmason 8/7 fráköst, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 6, Birkir Máni Sigurðarson 3, Ísak Júlíus Perdue 3/6 stoðsendingar, Unnar Örn Magnússon 2, Svavar Ingi Stefánsson 2, Fróði Larsen Bentsson 2/5 fráköst.