Hamar-Þór tapaði naumlega fyrir Ármanni í 1. deild kvenna í körfubolta í dag þegar liðin mættust í Þorlákshöfn.
Hamar-Þór hafði frumkvæðið lengst af 1. leikhluta og leiddi að honum loknum, 27-21. Ármann jafnaði 34-34, snemma í 2. leikhluta og tók forystuna í kjölfarið, þó að munurinn hafi aldrei orðið mikill. Staðan í hálfleik var 44-45.
Þriðji leikhluti var hnífjafn allan tímann og Hamar-Þór hafði forystuna þegar sá fjórði hófst, 67-66. Slæm byrjun í 4. leikhluta varð liðinu hins vegar að falli í dag því þar gerði Ármann 14-2 áhlaup og leiddi 69-80 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Hamar-Þór náði að minnka muninn niður í fimm stig en nær komust þær sunnlensku ekki og Ármann sigraði 81-87.
Astaja Tyghter var stigahæst hjá Hamri-Þór með 32 stig og 16 fráköst, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir skoraði 14 stig, Julia Demirer 13, auk þess sem hún tók 10 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir skoraði 12 stig, Helga María Janusdóttir 5, Ingibjörg Bára Pálsdóttir 3 og Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 2.
Hamar-Þór er nú í 7. sæti deildarinnar með 12 stig en Ármann er í 2. sæti með 20 stig.