Arna og Björg í Selfoss

Arna Ómarsdóttir og Björg Magnea Ólafs eru gengnar til liðs við lið Selfoss í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu. Arna kemur frá Breiðabliki og Björg frá Val.

Arna leikur stöðu miðvarðar en Björg er djúpur miðjumaður. Báðar eru þær við nám í bandarískum háskólum og fara því af landi brott í ágúst en ættu að ná þremur til fjórum leikjum með Selfossliðinu.

Arna, sem er 21 árs gömul, hefur aðeins komið við sögu í einum af níu leikjum Breiðabliks í Pepsi-deildinni í sumar. Hún hefur leikið tuttugu deildarleiki fyrir Breiðablik auk sjö leikja með KR í fyrrasumar þegar hún var lánuð frá Blikum. Hún á alls að baki tíu landsleiki fyrir U17 og U19 ára landslið Íslands.

Björg, er 24 ára gömul, og hefur ekki leikið með Valsliðinu í sumar. Hún hóf meistaraflokksferil sinn í Haukum og hefur lengst af leikið með Hafnarfjarðarfélaginu. Hún lék tvö tímabil með Keflavík 2007-2008 en gekk svo aftur í raðir Hauka. Björg var öflug á miðjunni hjá Haukum í fyrra en að loknu tímabilinu fór hún út til Bandaríkjanna þar sem hún lék með Embry Riddle í NCAA-deildinni. Hún á að baki 4 leiki fyrir U19 ára landslið Íslands.

“Þær fara snemma út til Bandaríkjanna báðar tvær en við verðum að nýta þær vel á meðan þær eru með okkur. Hópurinn okkar er þunnskipaður vegna meiðsla og ljóst að við verðum að styrkja okkur fyrir seinni umferðina í deildinni,” sagði Björn Kristinn Björnsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is. “Ég er að skoða leikmenn hérlendis og erlendis en það verður að viðurkennast að það er erfitt að finna leikmenn á Íslandi.”

Auk Örnu og Bjargar er Bríet Mörk Ómarsdóttir komin með leikheimild eftir dvöl í Þýskalandi.

Fyrri greinAndlausir Selfyssingar steinlágu á Skaganum
Næsta greinFjölbreytt Kartöflusúpuhátíð