Keppni í Uppsveitadeild hestamannafélaganna Loga, Smára og Trausta 2015 hófst með pompi og prakt um miðjan febrúar í reiðhöllinni í Torfdal við Flúðir þegar keppt var í fjórgangi.
Keppendur voru 24 og var hvert sæti í áhorfendastúkunni skipað spenntum áhorfendum.
Keppni í úrslitum var jöfn og aðeins skildi 0,03 stig að efsta mann og næst efsta. Fór svo að Arnar Bjarki Sigurðarson á Glæsi frá Torfunesi hafði betur gegn Bjarna Bjarnasyni á Hnokka frá Þóroddsstöðum. Þriðja sætið hlutu Hulda Finnsdóttir og Hrísey frá Langholtsparti með 6,90 í einkunn, Sólon Morthens á Mími frá Hvoli fylgdi þar á eftir í fjórða sæti með einkunnina 6,83 og fimmta sætið hlaut Sigurbjörg Bára Björnsdóttir á Blossa frá Vorsabæ II með 6,57 í einkunn.
Keppt er í þrjú skipti með um það bil mánaðar millibili. Næst fer fram keppni í fimmgangi og á síðasta keppniskvöldinu er keppt í tölti og skeiði.
Undanfarin ár hafa sjö lið att kappi en í þetta sinn bættist eitt lið í hópinn. Það eru því 36 knapar sem skipa liðin átta og keppa 24 þeirra í hvert skipti.
Allir knapar sem ljúka keppni fá stig fyrir sig og lið sitt. Efsti knapi fær 24 stig, sá næsti 23 stig og svo koll af kolli. Þeir knapar sem sem eru jafnir í sætum deila með sér stigunum. Staða liða eftir fjórganginn er þannig að lið Hrosshaga/Sunnuhvols er með 61 stig, Þórisjötnar eru í öðru sæti með 54 stig og Gamli og guttarnir í því þriðja með 41,5 stig. Flúðasveppir er aðal styrktaraðili keppninnar.