Miðjumaðurinn Arnar Freyr Óskarsson sem valinn var efnilegasti leikmaður Árborgar á síðasta tímabili hefur haft félagaskipti frá Selfossi yfir í Árborg.
Arnar, sem er 22 ára gamall, lék nítján leiki á miðjunni hjá Árborg í fyrrasumar sem lánsmaður frá Selfossi og var lykilmaður í liðinu sem tryggði sér sæti í 2. deild í vetur eftir sameiningu Tindastóls og Hvatar. Hann hefur leikið 29 leiki fyrir Árborg og skorað í þeim fimm mörk en hann lék einnig með liðinu sumarið 2009.
Árborgarar hafa fengið fleiri leikmenn til sín á síðustu vikum, m.a. Tómas Kjartansson frá KFS og Hjörvar Sigurðsson sem verið hefur einn af markahæstu leikmönnum KFR í 3. deildinni síðustu ár.
Árborg hefur leik í B-deild Lengjubikarsins á morgun þegar liðið mætir Víði Garði. Leikurinn hefur verið færður frá Selfossvelli og verður leikinn í Reykjaneshöllinni kl. 16.