Arnar Freyr Óskarsson var valinn leikmaður ársins hjá Knattspyrnufélagi Árborgar en lokahóf félagsins fór fram í Hvítahúsinu á Selfossi síðastliðið laugardagskvöld.
Arnar Freyr var einnig valinn miðjumaður ársins.
Ísak Eldjárn Tómasson var valinn bjartasta vonin og besti varnarmaður félagsins en Tómas Kjartansson var valinn besti sóknarmaðurinn. Markakóngur Árborgar var Magnús Helgi Sigurðsson, en hann skoraði níu mörk í 4. deildinni í sumar. Eyþór Helgi Birgisson var valinn félagi ársins.
Sjö leikmenn fengu viðurkenningu fyrir leikjafjölda. Hartmann Antonsson og Snorri Sigurðarson fengu viðurkenningu fyrir 100 leiki og þeir Magnús Helgi Sigurðsson, Einar Guðni Guðjónsson, Óskar Guðjónsson, Daníel Ingi Birgisson og Steinar Sigurjónsson fengu viðurkenningu fyrir 50 leiki.
Að auki var Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari liðsins, heiðraður en hann lætur nú af störfum eftir að hafa stýrt liðinu undanfarin fjögur keppnistímabil.
Árborg fór annað árið í röð í úrslitakeppni 4. deildarinnar en féll úr leik í 8-liða úrslitum.