Í síðustu viku var Arnari Gunnarssyni sagt upp sem þjálfara karlaliðs Selfoss í handbolta. Í kveðju sem Arnar bað sunnlenska.is um að koma á framfæri segist hann gjarnan hafa viljað klára það verk sem hann hóf á Selfossi.
Eftirfarandi er kveðja Arnars:
„Ágætu Selfyssingar.
Árið 2003 flutti ég á Selfoss sem leikmaður í handbolta og átti sá þáttur í lífi mínu aðeins að vara í eitt ár. Þau ár eru nú orðin tíu og verða því miður ekki fleiri.
Á Selfossi hef ég lært mikið sem þjálfari og ekki síst sem einstaklingur. Hér hef ég kynnst frábæru fólki sem ég lít á sem góða vini mína. Hefði ég gjarnan viljað klára það verk sem ég hóf hér en því miður verður svo ekki.
Markmið handknattleiksdeildar Selfoss fyrir leiktíðina 2012-2013 var að „lifa veturinn af“ og tel ég mig og mitt lið hafa náð því markmiði og vel það, þrátt fyrir meiðsli lykilmanna. Að öðru leyti kýs ég að tjá mig ekki um þessa ákvörðun stjórnarinnar.
Það er með sorg í hjarta sem ég kveð Selfoss og vil ég nota tækifærið til að kveðja alla þá sem hafa stutt mig og mín lið í gegnum árin. Eins kveð ég alla þá er að handboltamálum á Selfossi koma.
Ég kýs að þakka fyrir samstarfið og tækifæri mín hér.
Virðingarfyllst,
Arnar Gunnarsson“