Selfoss mætti úrvalsdeildarliði Leiknis í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í Egilshöllinni í dag. Leiknir sigraði 2-1.
Leiknir skoraði sín mörk með sex mínútna millibili, sitthvoru megin við hálfleiksflautið. Breiðhyltingar komust yfir á 43. mínútu og leiddu 1-0 í hálfleik, en staðan var orðin 2-0 á fjórðu mínútu síðari hálfleiks.
Arnar Logi Sveinsson minnkaði muninn í 2-1 á 68. mínútu en nær komust Selfyssingar ekki.
Selfoss hefur sjö stig í 3. sæti riðilsins en Leiknir er í toppsætinu með fimmtán stig.