Arnar tekinn við Selfossliðinu

Handknattleiksdeild Umf. Selfoss hefur ráðið Arnar Gunnarsson sem þjálfara meistaraflokks og 2. flokks karla næstu tvö árin.

Arnar hefur þjálfað yngri flokka félagsins um árabil auk þess að þjálfa í Handknattleiksakademíu FSu.

Um leið og Arnar var kynntur til leiks framlengdi Selfoss samninga við nokkra unga leikmenn en margir þeirra hafa komið upp í meistaraflokk í gegnum Handknattleiksakademíu FSu.

„Við erum afar stolt af því að hafa svo marga frábæra handknattleiksmenn í okkar röðum og því horfum við björtum augum til framtíðar,“ sagði Gylfi Már Ágústsson, formaður handknattleiksdeildarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

Selfoss ætlar sér stóra hluti á komandi tímabili og stefnan er sett á að fara beint upp í úrvalsdeild. Gylfi segir að reynt verði að styrkja liðið enn meira fyrir komandi vetur.

Meistaraflokkur Selfoss hefur verið að æfa á fullum krafti en fyrsta mót vetrarins er að venju Ragnarsmótið á Selfossi en það fer fram 1.-3. september í Vallaskóla.

Eftirtaldir leikmenn hafa framlengt samning sinn við UMFS. Andri Már Sveinsson, Baldur Þór Elíasson, Eyþór Lárusson, Gunnar Ingi Jónsson, Helgi Hlynsson, Hörður Bjarnarson, Matthías Halldórsson, Sigurður Már Guðmundsson, Magnús Magnússon, Örn Þrastarson, Trausti Eiríksson, Ketill Heiðar Hauksson, Ingvi Tryggvason, Guðni Ingvarsson, Andri Hrafn Hallsson og Sverrir Andrésson.

Fyrri greinVarað við umferð um Mýrdalsjökul
Næsta greinGestirnir hafa gaman af því að kíkja í fjósið