Árni Kóps mætir aftur til leiks á Heimasætunni

Næstkomandi laugardag, þann 13. maí, verður hin árlega torfærukeppni á Hellu, Blaklader torfæran, haldin. Keppni hefst kl. 11:00 og eru tuttugu keppendur skráðir til leiks.

Það er akstursíþróttanefnd Umf. Heklu sem heldur keppnina í samstarfi við Flugbjörgunarsveitina á Hellu.

Tuttugu keppendur eru skráðir til keppni í tveimur flokkum. Einn af þeim er torfærugoðsögnin Árni Kópsson sem keyrði Heimasætuna fyrir tæpum 30 árum til sigurs í flestum keppnum. Eftir gott gengi til fjölda ára seldi hann Heimasætuna en keypti hana svo aftur 2012, keppti í einni keppni og sigraði. Í fyrra keypti Árni bílinn aftur og fór með Heimasætuna í Ameríkuför íslenskra ökumanna til Tennessee. Það verður gaman að sjá hvort Árni eða Heimasætan hafa nokkru gleymt þegar þau mæta aftur til keppni í Blaklader torfæruna á Hellu á laugardag.

Hellukeppnin hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem ein skemmtilegasta torfærukeppni Íslandsmótsins. Þar er keppt í sandbrekkum með lúmskum stálum og auðvitað verður áin og mýrin á sínum stað.

Meðal annarra keppenda sem skráðir eru til leiks á Hellu eru Eðvald Orri Guðmundssson á Pjakknum, Guðmundur Ingi Arnarsson á Ljóninu, Sigurður Elías Guðmundsson á Ótemjunni, Geir Evert Grìmsson á Sleggjunni og Haukur Einarsson á Heklu.


Svona lítur Heimasætan út í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Orri mætir auðvitað á Pjakknum og lætur vaða í Mýrina. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinGrýlupottahlaup 3/2017 – Úrslit
Næsta greinSlökkvið kallað að spennistöð á Selfossi