Árni Þorgilsson, fyrrverandi formaður Héraðssambandsins Skarphéðins, var sæmdur gullmerki sambandsins á 96. Héraðsþingi HSK sem haldið var í Þorlákshöfn um síðustu helgi.
Fjöldi heiðursmerkja var veittur á þinginu en Örn Guðnason, varaformaður UMFÍ, var sæmdur gullmerki ÍSÍ og Fanney Ólafsdóttir, Umf. Þjótanda hlaut silfurmerki ÍSÍ. Jón M. Ívarsson, Umf. Þjótanda, var sæmdur gullmerki UMFÍ og starfsmerki UMFÍ hlutu þau Arni Þór Hilmarsson, Umf. Hrunamanna, Þorbjörg Vilhjálmsdóttir, Íþr. Suðra og Jóhannna Hjartardóttir, Umf. Þór.
Um 100 manns mættu á héraðsþingið. Litlar breytingar urðu á stjórn sambandsins, en öll stjórnin var endurkjörn utan þess að Jón Þröstur Jóhannesson Umf. Selfoss var kosinn nýr varastjórnarmaður í stað Gísla Ö. Brynjarssonar.
Stjórn sambandsins skipa þau, Guðríður Aadnegard formaður, Guðmundur Jónasson gjaldkeri, Helgi S Haraldsson varaformaður, Anný Ingimarsdóttir ritari og Baldur Gauti Tryggvason meðstjórnandi. Í varastjórn eru Gestur Einarsson, Olga Bjarnadóttir og Jón Þröstur Jóhannesson.
Reikningar sambandsins voru lagðir fram og samþykktir samhljóða. Tæplega einnar milljón króna hagnaður varð af rekstri sambandsins á síðasta ári. Hagnaður er meiri en áætlun gerði ráð fyrir, sem skýrist að stærstum hluta af auknum Lottótekjum.
Samkvæmt venju fór sleifarkeppni HSK fram á þinginu og þar sigraði Svanur Bjarnason Golfklúbbi Selfoss og Guðmundur Jónasson gjaldkeri HSK var útnefndur matmaður þingsins.
Örn Guðnason (t.v.) varaformaður UMFÍ nældi gullmerki UMFÍ í Jón M. Ívarsson. Ljósmynd/HSK
Árni Þór Hilmarsson, Umf. Hrunamanna, Þorbjörg Vilhjálmsdóttir, Íþr. Suðra og Jóhannna Hjartardóttir, Umf. Þór, hlutu starfsmerki UMFÍ. Ljósmynd/HSK