„Ég reikna ekki með að vera með í handboltanum í vetur vegna anna á öðrum vígstöðvum,“ sagði handknattleiksmaðurinn og læknaneminn, Árni Steinn Steinþórsson.
Handbolti.is greinir frá þessu og ræðir við Árna Stein.
„Ég er á fjórða ári í læknisfræði sem er mestmegnis verklegt nám og því fylgir talsverð vaktavinna. Það er erfitt að samtvinna handboltann og námið, að minnsta kosti ef maður ætlar að vera af fullum krafti á báðum vígstöðvum,“ sagði Árni Steinn sem lauk BSc námi í sjúkraþjálfun áður en hann söðlaði um og sneri sér að læknisnáminu.
Árni Steinn lék 10 leiki og skoraði 37 mörk með Selfoss-liðinu í Olísdeildinni á síðustu leiktíð áður en hann sleit krossband í nóvember.