Knattspyrnufélag Rangæinga vann öruggan sigur á Álafossi í B-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu á Hvolsvelli í kvöld.
Gestirnir úr Mosfellsbæ komust yfir á 8. mínútu en Aron Daníel Arnalds jafnaði metin með marki úr vítaspyrnu. Hann lét ekki þar við sitja heldur bætti við tveimur mörkum til viðbótar á næstu tíu mínútunum og staðan var 3-1 í hálfleik.
Kristinn Ásgeir Þorbergsson kom KFR í 4-1 á annarri mínútu síðari hálfleiks og hann var svo aftur á ferðinni á 63. mínútu, 5-1. Aron Daníel hafði ekki sagt sitt síðasta heldur skoraði hann fjórða mark sitt og sjötta mark KFR í uppbótartímanum og lokatölur urðu 6-1.
Aron er lang markahæsti leikmaður 4. deildarinnar í sumar en hann er kominn með 18 mörk í átta leikjum. KFR er í toppsæti B-riðils með 17 stig en Álafoss er í 6. sæti með 4 stig.