92. héraðsþing Héraðssambandsins Skarphéðins verður haldið í félagsheimilinu Borg í Grímsnesi á laugardag og hefst stundvíslega kl. 10:00.
Þing HSK hafa þrisvar sinnum verið haldin á Borg, árin 1968, 1976 og 2000.
Rétt til setu á þinginu eiga 122 fulltrúar frá 59 aðildarfélögum HSK og tveimur sérráðum sambandsins.
Á þinginu kemur út ríkulega myndskreytt 88 blaðsíðna ársskýrsla um starfsemi HSK á liðnu ári. Auk hefðbundinna þingstarfa verður val á Íþróttamanni HSK 2013 kunngjört á héraðsþinginu. Fimm manna valnefnd sá um að velja íþróttamann líkt og undanfarin ár, en alls voru 21 íþróttamenn í jafn mörgum greinum tilnefndir. Hafa þeir allir verið boðaðir á verðlaunahátíð HSK sem haldin verður á Borg kl. 15:15 á laugardag.
Stjórn HSK mun leggja fram 26 tillögur á þinginu og þá mun kjörnefnd leggja fram tillögu að nefndar- og stjórnarskipan HSK 2014.
Ljóst er að breytingar verða á stjórn sambandsins, en Hansína Kristjánsdóttir, sem kosin var gjaldkeri á síðasta héraðsþingi, verður ekki í kjöri. Þá gefur Lára B. Jónsdóttir ekki kost á sér til endurkjörs, en hún átti sæti í varastjórn. Kjörnefnd sem kosin var fyrir nokkru hefur ekki lokið störfum og auglýsir kjörnefndin eftir fólki sem vill taka sæti í varastjórn. Eru áhugasamir beðnir að hafa samband við Anný Ingimarsdóttur á netfangið anny@arborg.is í dag eða á morgun.