Arsenalklúbburinn á Íslandi var stofnaður 15. október 1982 af tveimur ungum mönnum á Selfossi, þeim Hilmari Hólmgeirssyni og Kjartani Björnssyni.
Klúbburinn byrjaði smátt en stækkaði svo smátt og smátt og komst nálægt 2.000 manns þegar best lét. Kjartan lét af formennsku árið 2002 eftir formennsku í 20 ár.
Þar sem klúbburinn var stofnaður á Suðurlandi þá þótti tilhlýðilegt að hafa afmælishátíð vegna 30 ára afmælisins á heimavelli og því var blásið til hátíðar í Hvítahúsinu síðastliðinn sunnudag.
Þá var slegið upp sýningu með persónulegum munum frá fyrrum formanni, menn gæddu sér á 30 ára afmælisköku og að endingu horfðu menn saman á Arsenal leika gegn Manchester United. Mætingin var góð og menn voru ánægðir með daginn.