Ungmennafélagið ÁS í Skaftárhreppi átti í fyrsta skipti lið á Íslandsmóti í körfubolta um helgina, þegar drengir í 8. flokki kepptu á móti í Laugardalshöllinni.
Drengirnir, sem eru í 7. og 8. bekk, höfðu beðið eftir mótinu með mikilli eftirvæntingu. Og ekki nóg með það að þeir væru að fara spila á sínu fyrsta Íslandsmóti, heldur hönnuðu þeir einnig körfuboltabúning af þessu tilefni sem Henson framleiddi fyrir þá.
Fyrsti leikur ÁS var gegn Dímon/Heklu þar sem Rangæingar höfðu betur 54-18. Næsti leikur var gegn Val, þar sem strákarnir í ÁS unnu glæsilegan sigur 42-22. Þeir sigruðu síðan Samherja úr Eyjafirði 47-38 og mættu síðan liði Dímonar/Heklu öðru sinni, þar sem Rangæingar höfðu aftur betur.
Glæsileg frumraun ÁS á Íslandsmóti í körfubolta en næsta mótahelgi þeirra verður dagana 24.-25. maí næstkomandi.