Ásgeir Snær Vignisson hefur skrifað undir samning við handknattleiksdeild Selfoss og mun leika með liðinu út yfirstandandi keppnistímabil.
Ásgeir Snær kemur til Selfoss frá Fjellhamer IL í Noregi þar sem hann hefur leikið frá síðastliðnu sumri. Tímabilið á undan lék hann með OV Helsingborg í sænsku úrvalsdeildinni. Þar áður hafði Ásgeir Snær leikið með ÍBV í tvö tímabil ásamt uppeldisklúbbnum sínum Val.
Ásgeir Snær er 24 ára og leikur sem hægri skytta og getur einnig leikið í hægra horni.
Í tilkynningu frá Selfyssingum er Ásgeir boðinn hjartanlega velkominn á Selfoss og vonast er til að hann muni styrkja liðið í þeirri baráttu sem framundan er en Selfoss er í neðsta sæti deildarinnar.