Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir, knattspyrnukona frá Selfossi, hefur gert tveggja ára samning við sænska úrvalsdeildarfélagið KIF Örebro.
Áslaug Dóra, sem er tvítugur varnarmaður, hefur verið lykilmaður í liði Selfoss undanfarin ár en hún lék sína fyrstu leiki í úrvalsdeildinni 15 ára gömul. Hún hefur leikið 120 meistaraflokksleiki fyrir uppeldisfélagið sitt. Auk þess á hún að baki einn A-landsleik og 29 leiki fyrir yngri landslið Íslands.
Örebro greinir frá félagaskiptunum á heimasíðu sinni og þar er haft eftir Áslaugu Dóru að hún sé mjög ánægð og spennt fyrir þessu skrefi á ferlinum.
„Það hefur alltaf verið draumur minn að spila erlendis og ég hlakka til að hitta nýju liðsfélagana og koma tímabilinu af stað. Ég hef heyrt margt gott um Örebro og vona að ég geti hjálpað liðinu að ná markmiðum sínum og á sama tíma haldið áfram að þróa mig sem leikmaður og manneskja,“ segir Áslaug Dóra.