Selfoss vann góðan sigur á Fylki í Olís-deild kvenna í handknattleik þegar liðin mættust á Selfossi í dag. Lokatölur urðu 26-22 eftir að Áslaug Ýr Bragadóttir, markvörður Selfoss, hafði skellt í lás.
Fyrri hálfleikur var jafn en Selfyssingar voru skrefinu á undan lengst af. Selfoss hafði tveggja marka forskot, 9-7, um miðjan fyrri hálfleikinn en Fylkir náði að jafna 11-11 og staðan var 14-14 í hálfleik.
Selfoss komst í 18-15 í upphafi síðari hálfleiks og þegar leið á seinni hálfleikinn náðu þær vínrauðu ágætum tökum á leiknum, með góðu framlagi og liðheild bæði í vörn og sókn. Munurinn varð mestur sex mörk en Fylkir minnkaði muninn niður í fjögur mörk áður en yfir lauk.
Carmen Palamariu var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 5/3, Kristrún Steinþórsdóttir og Thelma Sif Kristjánsdóttir 4, Elena Birgisdóttir og Kara Rún Árnadóttir 3 og Perla Ruth Albertsdóttir 1.
Áslaug Ýr átti stórleik í marki Selfoss, varði 21 skot og var með 48,8% markvörslu. Katrín Ósk Magnúsdóttir varði eitt vítaskot.