Það var mikið um dýrðir í golfskálanum á Svarfhóli í kvöld þar sem lokahóf Íþróttafélagsins Mílunnar fór fram. Markvörðurinn Ástgeir Rúnar Sigmarsson var valinn leikmaður ársins.
Ástgeir sýndi fín tilþrif á milli stanganna hjá Mílunni í vetur en hann var einnig valinn markvörður ársins hjá félaginu.
Sigurður Már Guðmundsson var valinn besti varnarmaðurinn auk þess sem hann fékk hinn mikilvæga titil „bestur í þjöppu“. Atli Kristinsson var markakóngur Mílunnar með 99 mörk, og einnig valinn sóknarmaður ársins og Magnús Øder Einarsson var útnefndur bjartasta vonin hjá félaginu. Þá var Birgir Örn Harðarson, forseti Mílunnar, valinn félagi ársins.
Fjöldi annarra, ekki síður eftirsóttra verðlauna voru veitt. Ómar Vignir Helgason var valinn Belja ársins og Einar Sindri Ólafsson bestur í fótbolta í upphitun. Gunnar Ingi Jónsson var valinn harðasti leikmaðurinn og þótti vel að titlinum kominn.
Guðbjörn Tryggvason skoraði mark ársins og Sigurþór Þórsson var valinn liðsstjóri ársins, auk þess sem Sebastian Popovic Alexandersson var útnefndur þjálfari ársins.
Atvik ársins var Íbizaferð félagsins en liðsmenn Mílunnar fóru á Ísafjörð í vetur í mjög eftirminnilega ferð.