Áströlsk landsliðskona í Selfoss

Emma Checker skrifar undir hjá Selfyssingum. Ljósmynd/UMFS

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við áströlsku landsliðskonuna Emma Checker um að leika með liði félagsins í sumar.

Checker er 25 ára gamall miðvörður sem hefur lengst af leikið í heimalandi sínu en einnig í Suður-Kóreu og Frakklandi. Hún hefur leikið 5 A-landsleiki fyrir Ástralíu og á einnig leiki fyrir U17 og U20 landsliðin. Cheker er í leikmannahópi Ástralíu sem mætir Þýskalandi í æfingaleikjum nú í apríl og flýgur svo til Íslands að því verkefni loknu.

„Við erum að fá frábæran leikmann í okkar raðir. Hún er í ástralska landsliðinu og er að berjast um að komast á Ólympíuleikana með sinni þjóð. Það er mjög ánægjulegt að hún vilji koma til okkar og styrkja okkar hóp. Þetta er reynslumikill leikmaður og það er mikil tilhlökkun hjá okkur að vinna með henni. Hún var mjög hrifin af því sem við höfum fram að færa fótboltalega séð og á eflaust eftir að geta miðlað af sinni reynslu til yngri leikmanna okkar,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.

Checker í leik með Melbourne City. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinGosmóða yfir Suðurlandi
Næsta greinGuðbrandur leiðir lista Viðreisnar