Ástu og Guðrúnu veitt starfsmerki UMFÍ

Lokafundur framkvæmdanefndar landsmóta á Selfossi var haldinn í Þrastarlundi sl. föstudagskvöld. Á fundinum heiðraði UMFÍ tvo einstaklinga sem komið hafa að undirbúningi og framkvæmd mótanna beggja.

Helga G. Guðjónsdóttir formaður UMFÍ veitti Ástu Stefánsdóttur og Guðrúnu Tryggvadóttur starfsmerki UMFÍ.

Ásta átti sæti í framkvæmdanefndinni og tók virkan þátt í störfum nefndarinnar fh. sveitarfélagsins.

Guðrún var verkefnisstjóri Unglingalandsmótsins og starfaði einnig við undirbúning og framkvæmd Landsmótsins í sumar. Þá hefur Guðrún um árabil unnið við sumarafleysingar á skrifstofu HSK, átt sæti í landsmótsnefnd HSK og verið í forystusveit HSK á Unglingalandsmótum UMFÍ.

Framkvæmdanefndin hafði yfirumsjón með undirbúningi og skipulagningu bæði Unglingalandsmóts UMFÍ árið 2012 og Landsmóts UMFÍ árið 2013. Fundurinn var sá 55. í röðinni, en fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn 12. janúar 2009.

Fyrri greinSS byggir vöruhús í Þorlákshöfn
Næsta greinSex skólar kepptu á grunnskólamótinu