Atli með tíu í auðveldum sigri

Selfyssingar fengu ekki mikla mótspyrnu þegar þeir fengu Hamrana í heimsókn í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 37-21.

Öll spenna var úr leiknum að einni mínútu liðinni en eftir að gestirnir skoruðu fyrsta mark leiksins skoruðu Selfyssingar sex mörk í röð. Atli Kristinsson og Andri Már Sveinsson voru öflugir í upphafi og skoruðu sex af fyrstu átta mörkum Selfoss, auk þess sem Sebastian Alexandersson varði nánast öll skot sem hittu á markið.

Eftir rúmar tuttugu mínútur var munurinn orðinn tíu mörk, 15-5, en staðan var 19-9 í hálfleik.

Selfyssingar héldu sínu striki í seinni hálfleik, skoruðu grimmt og spiluðu ágæta vörn lengst af. Sverrir Andrésson tók seinni hálfleikinn í markinu og varði vel. Sævar Ingi Eiðsson stóð sig vel í sínum fyrsta meistaraflokksleik og skoraði fjögur mörk en hann er enn í 3. flokki. Þá sýndi Egidijus Mikalonis fín tilþrif og það gladdi leikmenn og áhorfendur þegar Gunnar Ingi Jónsson sneri aftur inn á parketið eftir ellefu mánaða fjarveru vegna meiðsla. Maður leiksins var hins vegar Atli Kristinsson sem var markahæstur Selfyssinga með tíu mörk.

Munurinn hélst í rúmum tíu mörkum lengst af seinni hálfleik en á lokakaflanum skoruðu Selfyssingar sex mörk í röð og breyttu stöðunni úr 28-16 í 34-16. Lokatölur urðu 37-21.

Sem fyrr segir skoraði Atli 10 mörk, Einar Sverrisson 5, Sævar Ingi, Andri Hrafn Hallsson og Jóhann Erlingsson 4, Andri Már Sveinsson 4/2, Egidijus 3, Sverrir Pálsson 2 og Ómar Ingi Magnússon 1.

Sebastian varði 12 skot í fyrri hálfleik og var með 57% markvörslu og Sverrir varði 10/1 skot í seinni hálfleik og var með 48% markvörslu.

Selfyssingar eru enn í 3. sæti deildarinnar, nú með 25 stig.

Fyrri greinBúðarhálsstöð gangsett í dag
Næsta greinBáran samþykkti samninginn