Handknattleiksdeild Umf. Selfoss hefur samið við Atla Kristinsson um að ganga inn í þjálfarateymi meistaraflokks karla fyrir komandi tímabil. Hann mun verða Carlos Martin Santos til halds og trausts með meistaraflokk karla sem og 3. flokk og U-lið.
Atla Kristins þarf vart að kynna fyrir sunnlensku handboltaáhugafólki, þó víðar væri leitað. Hann er einn af tryggari handboltamönnum sem Selfoss hefur alið og lék á sínum ferli 221 leik fyrir meistaraflokk Selfoss og skoraði í þeim 885 mörk. Þá er Atli markahæsti leikmaður í sögu ÍF Mílan. Atli hefur verið viðloðandi starf deildarinnar með ýmsum hætti um árabil, setið í stjórn, þjálfað yngri flokka og komið að ýmsum viðburðum. „Það er ómetanlegt fyrir ungt lið Selfoss að fá þennan reynslubolta til að miðla sinni þekkingu,“ segir í tilkynningu frá Selfyssingum.
„Ég er spenntur fyrir þessu verkefni sem komið er í gang hér á Selfossi. Margir ungir efnilegir strákar í bland við leikmenn með smá reynslu. Ég mun reyna gera mitt besta í að kenna þeim eitthvað af því sem að ég kann og þá á ég við ekki bara að skjóta á markið. Mér lýst vel á Carlos og hans hugmyndir og hef fulla trú á að hann geti leitt liðið þangað sem það á heima,“ segir Atli og klikkir svo út með einu klassísku „áfram Selfoss“.