Níu Íslandsmeistaratitlar til HSK/Selfoss

HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari félagsliða í flokki 12 ára stúlkna. (F.v.) Helga Fjóla, Arndís, Elísabet Líf, Aldís og Bryndís Embla. Ljósmynd/Þuríður Ingvarsdóttir

Keppendur frá HSK/Selfoss unnu níu Íslandsmeistaratitla á Meistaramóti Íslands 11-14 ára í frjálsum íþróttum sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði um helgina.

Eftir sjö ára sigurgöngu þurfti HSK/Selfoss að sjá á eftir meistaratitlinum í heildarstigakeppninni til FH. HSK/Selfoss varð í 2. sæti með 547,5 stig en FH-ingar sigruðu örugglega með 643 stig. 

HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari félagsliða í tveimur aldursflokkum en liðið sigraði með yfirburðum í flokki 13 ára pilta, með 174 stig og í flokki 12 ára stúlkna með 119 stig eftir harða keppni við FH-inga, þar sem munaði sjö stigum í lokin.

Helga Fjóla Erlendsdóttir var tvöfaldur Íslandsmeistari, en hún sigraði í hástökki og langstökki 12 ára stúlkna. Helga Fjóla stökk 1,41 m í hástökki og 4,43 m í langstökki.

Vésteinn Loftsson og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson urðu einnig tvöfaldir meistarar, í flokki 13 ára pilta. Vésteinn sigraði í 60 m grindahlaupi á tímanum 10,34 sek og Hjálmar Vilhelm kastaði kúlunni 12,27 m og sigraði. Þeir voru síðan báðir í sveit HSK/Selfoss í 4×200 m boðhlaupi sem sigraði á tímanum 1:58,60 mín. Með þeim í sveitinni voru þeir Ívar Ylur Birkisson og Kristinn Andri Sverrisson

Þá varð Bryndís Embla Einarsdóttir Íslandsmeistari í kúluvarpi í flokki 12 ára stúlkna, kastaði 8,79 m og Ísold Assa Guðmundsdóttir varð Íslandsmeistari í hástökki í flokki 14 ára stúlkna, stökk 1,56 m.

Eitt HSK-met var slegið á mótinu en Þórhildur Lilja Hafsteinsdóttir setti héraðsmet í 600 m hlaupi í flokki 14 ára stúlkna, hljóp á 1:47,67 mín og bætti tíu ára gamalt met Hörpu Svansdóttur, Umf. Selfoss, 2,76 sekúndur.

Alls unnu keppendur HSK/Selfoss til 27 verðlauna á mótinu, 6 gullverðlauna, 8 silfurverðlauna og 13 bronsverðlauna og hátt í annað hundrað bætingar litu dagsins ljós.

Helga Fjóla Erlendsdóttir (t.v.) sigraði í langstökki og hástökki og Bryndís Embla Einarsdóttir sigraði í kúluvarpi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Vésteinn Loftsson sigraði í 60 m grindahlaupi. Ljósmynd/Frjálsíþróttasamband Íslands
Hjálmar Vilhelm Rúnarsson sigraði í kúluvarpi. Ljósmynd/Frjálsíþróttasamband Íslands
Sveit HSK/Selfoss sigraði í 4×200 m boðhlaupi 13 ára pilta. Sveitina skipuðu Ívar Ylur Birkisson, Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Kristinn Andri Sverrisson og Vésteinn Loftsson. Ljósmynd/Guðbjörg Viðarsdóttir
Bryndís Embla Einarsdóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Ísold Assa Guðmundsdóttir stekkur hér langstökk, en hún varð Íslandsmeistari í hástökki. Ljósmynd/Frjálsíþróttasamband Íslands
Þórhildur Lilja Hafsteinsdóttir setti héraðsmet í 600 m hlaupi 14 ára stúlkna. Ljósmynd/Frjálsíþróttasamband Íslands
HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari félagsliða í flokki 13 ára pilta. (F.v.) Helgi, Vésteinn, Hjálmar, Ívar Ylur og Kristinn og fyrir framan er Vikar Reyr. Ljósmynd/Þuríður Ingvarsdóttir
Fyrri greinHamar aftur í toppsætið
Næsta greinFreyja ráðin verkefna- og gæðastjóri