Ungmennalið Selfoss lauk keppni í Grill-66 deild karla í kvöld á Ásvöllum í Hafnarfirði, þar sem liðið mætti ungmennaliði Hauka.
Liðin voru með jafn mörg stig fyrir leikinn en Haukar-U mörðu eins marks sigur og lyftu sér þar með upp í 6. sætið með 17 stig en Selfoss-U lýkur keppni í 8. sæti með 15 stig.
Selfyssingar léku á als oddi í fyrri hálfleik, komust snemma í 5-9 og náðu mest sjö marka forskoti. Staðan í hálfleik var 14-21.
Í seinni hálfleiknum fór hins sóknarleikurinn út um þúfur hjá Selfyssingu og þegar sjö mínútur voru eftir jöfnuðu Haukar 26-26. Selfyssingar tóku leikhlé en allt kom fyrir ekki, Haukar-U tóku forystuna og héldu henni til leiksloka. Lokatölur urðu 30-29.
Hans Jörgen Ólafsson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Sæþór Atlason og Vilhelm Freyr Steindórsson skoruðu 5, Haukur Páll Hallgrímsson 3, Gunnar Flosi Grétarsson, Gunnar Kári Bragason og Anton Breki Hjaltason 2 og Valdimar Örn Ingvarsson 1.
Alexander Hrafnkelsson varði 12 skot í marki Selfoss-U.