Átta sunnlenskir knapar eru í landsliði Íslands í hestaíþróttum sem keppir á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem hefst í Austurríki þann 1. ágúst nk.
Nítján knapar skipa landsliðið sem hefur á að skipa reyndum og sterkum knöpum og hestum og er mikils vænst af þeim á keppnisvöllunum í St. Radegund í Austurríki í ágúst, að er fram kemur í tilkynningu frá LH.
Auk sunnlensku knapanna eru landsliðsstjórarnir báðir Sunnlendingar, Selfyssingurinn Einar Öder Magnússon í Halakoti og Hafliði Halldórsson á Ármótum á Rangárvöllum. Þeir kynntu fullskipað lið í fyrsta sinn í dag.
Fram kom í máli landsliðsstjóranna að þeir væru afar ánægðir með valið, enda byggir liðið á keppnisreyndum knöpum og hrossum sem hafa skipað sér meðal bestu keppnishrossa að undanförnu.
Meðal knapanna eru þrjú ungmenni sem öll eru Sunnlendingar. Agnes Hekla Árnadóttir í Nýjabæ í Sandvíkurhreppi og gæðingurinn Vignir frá Selfossi, Arnar Bjarki Sigurðarson á Sunnuhvoli í Ölfusi og Röskur frá Sunnuhvoli keppa í ungmennaflokki ásamt Heklu Katharínu Kristinsdóttur í Árbæjarhjáleigu sem keppir á Gautrek frá Torfastöðum. Þegar valið var kynnt sagði Hafliði að landsliðsstjórarnir væru afar montnir að hafa fengið í liðið svo sterk ungmenni.
Nýkrýndir Íslandsmeistarar í samanlögðum fjórgangsgreinum, Hinrik Bragason á Árbakka á Rangárvöllum og Sigur frá Hólabaki, mæta til leiks í tölti og fjórgangi. Betri helmingur Hinriks, Hulda Gústafsdóttir keppir í sömu greinum á Kjuða frá Kirkjuferjuhjáleigu og Viðar Ingólfsson á Kvíarhóli í Ölfusi og Tumi frá Stóra-Hofi keppa einnig í tölti og fjórgangi.
Þá eru í hópnum tveir sunnlenskir kynbótaknapar Erlingur Erlingsson í Langholti í Flóa mætir með Rauðhetta frá Kommu í flokki sex vetra hryssa og Selfyssingurinn Sigurður Óli Kristinsson sýnir Feyki frá Háholti í flokki fimm vetra stóðhesta.
Níundi Sunnlendingurinn í hópnum er Árni Björn Pálsson en hann er barnabarn Árna heitins Jóhannsonar í Teigi í Fljótshlíð. Árni Björn mætir með Aris frá Akureyri og keppir í tölti, fimmgangi, 250 og 100 m skeiði og gæðingaskeiði.
Hestarnir munu fljúga út næstkomandi sunnudag og knapar munu svo mæta til Austurríkis fimmtudagsmorguninn 28. júlí.