Kvennalið Selfoss tapaði 0-2 þegar Breiðablik kom í heimsókn á Jáverk-völlinn í Pepsi Max deildinni í kvöld.
„Mér fannst við spila mjög vel, mér fannst við vera með yfirhöndina í leiknum. Ég var mjög ánægður með varnarlínuna alla. Breiðablik náði ekki að skapa neitt nema úr þessum innköstum. Við áttum að gera betur í sókninni og þora að skjóta á markið. Auðvitað er erfitt að vera strax sex stigum á eftir en við þurfum einfaldlega að byrja að skora mörk og koma okkur á töfluna,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, eftir leik.
Tvö mörk eftir löng innköst
Breiðablik komst yfir úr fyrstu sókn leiksins, strax á 3. mínútu þegar boltinn datt fyrir Öglu Maríu Albertsdóttur í vítateignum eftir langt innkast. Agla átti ekki í neinum vandræðum með að skora úr færinu.
Gestirnir voru sterkari í upphafi leiks en þegar leið á fyrri hálfleikinn náðu Selfyssingar góðum tökum á leiknum en fengu ekki mörg færi. Dagný Brynjarsdóttir fékk líklega besta færi Selfoss í kvöld en skallaði framhjá af stuttu færi á 20. mínútu.
Staðan var 0-1 í hálfleik og Selfoss sótti stíft í seinni hálfleiknum. Blikar bættu hinsvegar við marki, gegn gangi leiksins, á 82. mínútu þegar Alexandra Jóhannsdóttir mokaði knettinum yfir línuna, aftur eftir langt innkast.
Selfoss án stiga
Selfoss er án stiga í neðri hluta deildarinnar og hefur ekki enn náð að skora mark. Breiðablik er í toppsætinu með 6 stig og markatöluna 5-0.