Ægismenn luku keppni í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld með auðveldum 6-0 sigri á Hvíta riddaranum í Þorlákshöfn.
Ægismenn léku á alls oddi í fyrri hálfleik og eftir 23 mínútur var staðan orðin 3-0. Michael Jónsson skoraði fyrsta markið á 10. mínútu og Milan Djurovic skoraði úr vítaspyrnu áður en Michael bætti við öðru marki sínu. Áður en fyrri hálfleikur var allur hafði Óskar Snær Vignisson skorað fjórða markið og staðan var 4-0 í hálfleik.
Það var minna skorað í seinni hálfleik en Ægismenn voru áfram sterkari. Arnar Þór Ingólfsson skoraði fimmta mark Ægis á 76. mínútu og þremur mínútum síðar innsiglaði Michael þrennuna með síðasta marki leiksins.
Ægir lauk keppni í 5. sæti B-riðils en KFS gæti mögulega farið uppfyrir Ægi vinni Eyjamenn Létti á morgun með minnst fjögurra marka mun.