Auður lagði grunninn að fyrsta sigri Selfoss

Auður Helga Halldórsdóttir sækir að marki ÍR í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann sinn fyrsta leik í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðið tók á móti ÍR á Selfossvelli.

Það var lítið að frétta þangað til á 17. mínútu þegar Embla Dís Gunnarsdóttir renndi boltanum á Auði Helgu Halldórsdóttur sem stakk sér innfyrir og lagði knöttinn örugglega í netið. ÍR tók miðju og 57 sekúndum seinna lá boltinn aftur í netinu hjá þeim. Katrín Ágústsdóttir átti þá frábæran sprett upp hægri kantinn, renndi boltanum fyrir og Auður Helga kom á ferðinni á fjærstönginni og skoraði af öryggi.

Selfyssingar voru með nokkuð góð tök á leiknum en mistókst að halda hreinu fram að leikhléi. ÍR minnkaði muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks með skoti af stuttu færi eftir klaufaskap Selfyssinga.

Staðan var 2-1 í hálfleik og bæði lið hefðu getað bætt við mörkum í seinni hálfleiknum. Það gerðist þó ekki fyrr en undir lokin en á 75. mínútu virtust Selfyssingar ætla að loka leiknum með reynslunni, þegar bæði Sif Atladóttur og Hólmfríði Magnúsdóttur var skipt inná. Það var þó ungstirnið Katrín Ágústsdóttir sem afgreiddi leikinn endanlega á 80. mínútu en þá átti Embla Katrín Oddsteinsdóttir frábæra sendingu inn á teiginn, Katrín var firnasterk, sneri með varnarmann í bakinu og negldi boltanum í netið.

Selfoss er nú í 2. sæti deildarinnar með 5 stig eftir þrjá leiki en velflest liðin fyrir neðan eiga leik til góða á þær.

Fyrri greinSylvía Karen ráðin sveitarstjóri
Næsta greinHjálmar náði lágmarki fyrir NM í tugþraut