Íslands- og bikarmeistarar Hamars í blaki karla tóku á móti Aftureldingu í sínum fyrsta heimaleik á tímabilinu í kvöld.
Hamarsmenn mættu vel stemmdir til leiks og áttu gestirnir afar erfitt uppdráttar í leiknum. Í öllum hrinum náði Hamar forystu strax í upphafi og hélt henni út hrinuna. Fór svo að Hamar vann auðveldan 3-0 sigur, 25-18, 25-14 og 25-20.
Hafsteinn Valdimarsson, fyrirliði Hamars, var maður leiksins og átti hann flestar blokkir í leiknum ásamt þeim Jakub Madej og Tomek Leik. Madej var einnig stigahæstur ásamt Wiktor Mielazarek, báðir með 11 stig.