„Ég er ekki alveg búin að átta mig á þessu. En þetta hlýtur að tikka inn. Ætli ég verði ekki að horfa á þetta aftur og aftur í sjónvarpinu um helgina og þá förum við að fatta þetta held ég,“ sagði Jóhanna Margrét Hjartadóttir, formaður körfuknattleiksdeildar Þórs, eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistartitil karla í fyrsta sinn í kvöld.
„Þetta hefur gríðarlega þýðingu fyrir samfélagið og deildina. Við erum ekki stór deild, en við höfum verið að eflast undanfarin ár. Við erum með góða þjálfara, starfið hefur verið gott og ég held að flestum líði vel hérna. Við erum með frábæran hóp af sjálfboðaliðum í kringum starfið, foreldra og líka foreldra sem einhvern tímann áttu krakka í körfubolta. Þetta er algjörlega magnaður hópur,“ bætti Jóhanna við.
Leikurinn í kvöld lagðist vel í hana eftir tapið í Keflavík í síðasta leik.
„Ég vissi að við myndum vinna í kvöld. Ég hafði svo góða tilfinningu fyrir þessu. Við erum búin að vera svo góður hópur að undirbúa salinn og gera allt klárt. Auðvitað var hjartsláttur… en ég fór í góða sundferð og hún læknar allt. Ég fékk góða slökun og svo byrjaði þetta geggjaða fjör hérna,“ sagði Jóhanna hlæjandi.
Og á svo að fagna fram á nótt?
„Við höfum æft ýmislegt og kunnum ýmislegt en við kunnum ekki að vera Íslandsmeistarar. Við lærum það, það er alveg klárt, þetta verður fyrsti titillinn af mörgum,“ sagði formaðurinn glaðbeittur að lokum.