Bæði karla- og kvennalið Selfoss í handbolta áttu leiki á útivelli í kvöld – og bæði uppskáru sigur.
Kvennalið Selfoss mætti FH á útivelli í Olís-deildinni í jöfnum og spennandi leik. FH leiddi 10-9 í hálfleik en Selfossliðið var sterkara í seinni háflleik, náði mest fjögurra marka forskoti þegar tíu mínútur voru eftir, 17-21, og landaði að lokum 23-25 sigri.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 8 mörk, Thelma Sif Kristjánsdóttir og Carmen Palamariu skoruðu 4, Perla Ruth Albertsdóttir 3 og þær Elena Birgisdóttir, Kristrún Steinþórsdóttir og Hildur Øder Einarsdóttir skoruðu allar 2 mörk.
Selfoss er í 7. sæti deildarinnar með 11 stig en FH er í 10. sæti með 6 stig.
Öruggt hjá körlunum
Karlaliðið hélt upp á bóndadaginn með öruggum sigri á Þrótti í 1. deildinni. Selfoss náði fimm marka forskoti eftir fimmtán mínútna leik og munurinn var sá sami í hálfleik, 11-16. Selfossliðið hafði svo góð tök á leiknum í síðari hálfleik, náði tíu marka forskoti, 15-25, þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum en Þróttarar klóruðu lauslega í bakkann undir lokin og lokatölur urðu 21-28.
Eftir leikinn er Selfoss í 3. sæti deildarinnar með 19 stig en Þróttur í 7. sæti með 5 stig.
Andri Már Sveinsson var markahæstur með 6 mörk, Daníel Róbertsson, Hörður Másson og Guðjón Ágústsson skoruðu allir 4 mörk, Hergeir Grímsson 3, Árni Geir Hilmarsson, Egill Eiríksson og Egidijus Mikalonis 2 og Jóhann Erlingsson 1.