Bæjarráð Hveragerðisbæjar samþykkti á fundi sínum á miðvikudaginn að styrkja kvennalið Hamars í körfuknattleik um 250.000 krónur fyrir frábæran árangur á Íslandsmótinu í körfuknattleik í vetur.
Í bókun bæjarráðs segir að árangur liðsins sé ungmennum bæjarins og ekki síst stúlkum hvatning til frekari afreka.
Bæjarráð vill ennfremur þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem með óeigingjörnu starfi sínu hafa lyft grettistaki í íþróttalífi Hvergerðinga og gert árangur sem þennan að veruleika.