Bætti 30 ára gamalt héraðsmet

Fjóla Signý Hannesdóttir, HSK/Selfoss, bætti 30 ára gamalt héraðsmet Unnar Stefánsdóttur í 200 m hlaupi á Akureyrarmótinu í frjálsum íþróttum sem lauk í dag.

Fjóla hljóp á nákvæmlega sama tíma, 25,54 sekúndum, bæði í undanrásum og úrslitahlaupinu. Hún varð í 2. sæti og bætti eigin árangur um rúma sekúndu.

Héraðsmetið setti Unnur Stefánsdóttir, Umf. Samhygð, árið 1982, 25,4 sekúndur en sá tími var tekinn með handtímamælingu og því eru skekkjumörk á honum upp á +0,24 sekúndur. Fjóla sló einnig gamla Selfossmetið, 25,66 sekúndur, sem Þórdís Gísladóttir setti árið 1990.

Sólveig Helga Guðjónsdóttir varð í þriðja sæti í úrslitahlaupinu í dag á 27,40 sek.

Fjóla sigraði í 100 m hlaupi á 14,73 sek, varð önnur í 400 m grindahlaupi á 61,66 sek og þriðja í kúluvarpi þar sem hún kastaði 9,6 metra.

Haraldur Einarsson sigraði í langstökki með 6,49 metra og varð annar í 100 m hlaupi, hljóp á 11,11 sekúndum sem er bæting hjá honum um 0,12 sek. Dagur Fannar Magnússon sigraði í sleggjukasti karla þegar hann kastaði 46,02 metra og Þorsteinn Magnússon sigraði í 3.000 m hlaupi karla á 11:08,33 mín. Agnes Erlingsdóttir hljóp 400 m hlaup á 60,10 sek og hlaut bronsverðlaun að launum.

Sveit Selfoss keppti í 4×100 m boðhlaupi og sigruðu þær á tímanum 52,37sek en sveitina skipuðu þær Fjóla Signý Hannesdóttir, Andrea Vigdís Victorsdóttir, Edda Þorvaldsdóttir og Sólveig Helga Guðjónsdóttir.

Andrea Vigdís sigraði með yfirburðum í spjótkasti 14-15 ára stúlkna, kastaði 34,60. Þá varð hún í 2. sæti í 200 m hlaupi á 28,71 sek og sömuleiðis í kúluvarpi þar sem hún kastaði 9,31 m og bætti sig í báðum þessum greinum.

Jón Gautason varð annar í kúluvarpi 16-17 ára pilta, kastaði 10,76 metra og bætti sinn besta árangur um 1,27 m. Jón vann sömuleiðis silfur í kringlukasti þegar hann kastaði 28,12 metra.

UPPFÆRT 22/07/12 KL. 21:48

Fyrri greinLeik ÍBV og Selfoss frestað
Næsta greinGlæsilegasta ball sumarsins um næstu helgi