Senegalski leikmaðurinn Babacar Sarr verður áfram í herbúðum Selfyssinga sem leika í Pepsí deildinni í knattspyrnu á næsta tímabili.
Þetta staðfesti Óskar Sigurðsson formaður knattspyrnudeildar Umf. Selfoss í samtali við Sunnlenska. „Þetta er einn besti miðjumaður landsins og því mikið gleðiefni að hann verður áfram í okkar röðum,“ segir Óskar.
Babacar var til reynslu hjá norskum liðum sem sýndu leikmanninum mikinn áhuga en nú er ljóst að hann kemur aftur á Selfoss í janúar.
Þá segir Óskar að fleiri áhugaverðir erlendir leikmenn séu nú til skoðunar hjá þjálfurum liðsins og muni að líkindum koma hingað til lands í þeim tilgangi í upphafi næsta árs.