Einar Árni Jóhannsson þjálfari Þórs í Þorlákshöfn mun láta af störfum hjá Körfuknattleiksdeild Þórs í vor. Baldur Þór Ragnarsson, sem verið hefur aðstoðarþjálfari Einars Árna síðastliðin þrjú ár, tekur við liðinu í vor og gerir þriggja ára samning við deildina.
Einar Árni kom til starfa vorið 2015 og hefur stýrt liðinu undanfarin þrjú keppnistímabil.
„Það hefur verið frábært að starfa í Þorlákshöfn og það var mjög erfið ákvörðun að afþakka framlengingu á þriggja ára samningnum sem rennur út núna í vor. Ég tilkynnti forráðamönnum Þórs mína ákvörðun um síðustu mánaðarmót til að félagið gæti farið að huga að framhaldi. Mér hefur liðið afskaplega vel hjá Þór þar sem aðstæður eru frábærar og fólkið í kringum félagið einstakt. Við Baldur Þór höfum átt frábært samstarf og hann hefur haft stórt hlutverk í teyminu þessi þrjú ár sem við höfum unnið saman og ég er ánægður með að hann fái að halda áfram að byggja ofan á störf okkar og treysti ég honum til góðra verka. Hvað mig sjálfan varðar þá bý ég 80 km frá íþróttahúsinu í Þorlákshöfn og tveir tímar í akstri á dag rífa aðeins í til lengdar. Tíminn verður að leiða í ljós hvert næsta verkefni verður, en ég ætla að njóta lokasprettsins með strákunum,” segir Einar Árni í frétt á Facebooksíðu Þórsara.
Baldur Þór Ragnarsson er að taka við sínu fyrsta aðalþjálfarastarfi í meistaraflokki en hann hefur öðlast mikla reynslu á undanförnum árum, en auk aðstoðarþjálfarastarfsins hjá Þór hefur hann verið aðstoðarþjálfari U20 ára karlalandsliðsins s.l. þrjú ár, var auk þess aðstoðarþjálfari í U16 ára drengjalandsliðinu s.l. sumar og starfar einnig sem styrktarþjálfari A landsliðs karla. Baldur er auk þess yfirþjálfari yngri flokka í Þorlákshöfn og mun halda því starfi áfram. Baldur Þór er gegnheill Þórsari og var fyrirliði liðsins til margra ára og þekkir vel innviði deildarinnar.