Ölfusingurinn Baldur Þór Ragnarsson stýrði ungmennaliði Ulm til sigurs í sínum riðli á EuroLeague ANGT mótinu í Dúbaí eftir 89-84 sigur á Zalgiris Kaunas í gær.
„Mínir menn skildu allt eftir á vellinum og það var ótrúlegt að sjá. Það er stór stund fyrir okkur að sigra á þessu móti og Final Four verður spennandi reynsla fyrir okkur. Við munum berjast af fullum krafti í Berlín í maí,“ segir Baldur á heimasíðu Ulm.
Með sigrinum tryggði Ulm sér þátttöku í undanúrslitum í maí þar sem fjögur bestu lið Evrópu munu mætast í Berlín. Ekkert þýskt ungmennalið hefur áður komist í undanúrslit keppninnar.
Auk þess að stýra ungmennaliði Ulm í er Baldur aðstoðarþjálfari aðalliðs félagsins sem leikur í þýsku úrvalsdeildinni.