Bárður Guðmundarson fékk Háttvísibikar GSÍ fyrir árið 2015 afhentan á aðalfundi Golfklúbbs Selfoss á dögunum. Það má því segja að Bárður sé félagi ársins hjá GOS í ár.
Bárður hefur setið í nefndum og stjórn GOS meira og minna frá árinu 1996.
Háttvísibikarinn var gjöf frá Golfsambandi Íslands í tilefni af 40 ára afmæli GOS árið 2011. Bikarinn er veittur ár hvert þeim kylfingi sem endurspeglar hvað mest þá eiginleika sem stjórn Golfklúbbs Selfoss vill sjá hjá félagsmönnum GOS.
Sá sem hlýtur bikarinn þarf meðal annars að sýna heiðarleika á velli, góða ástundun, sinna sjálfboðavinnu og vera sér og klúbbnum til mikils sóma innan vallar sem utan.
Bikarinn er afhentur á aðalfundi ár hvert en handhafi hans er valinn af stjórn Golfklúbbs Selfoss.