Úrslitaeinvígi Þórs Þ. og Keflavíkur um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta hefst í Keflavík í kvöld kl. 20:15.
Þórsara bíður verðugt verkefni gegn firnasterku liði Keflavíkur en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki tryggir sér titilinn. Þórsarar hafa aldrei unnið Íslandsmeistaratitilinn en þeir komust síðast í úrslitaeinvígið árið 2012.
„Það er mikil tilhlökkun í hópnum. Við erum búnir að bíða eftir þessu síðan í ágúst. Það eru allir leikmenn klárir og vel stemmdir,“ segir Lárus Jónsson, þjálfari Þórs. Liði hans tókst ekki að vinna Keflavík í deildarkeppninni í vetur. „Við þurfum að koma í veg fyrir auðveldar körfur og spila án þess að hika til þess að vinna þá,“ sagði Lárus þegar hann var spurður að því hver væri lykillinn að sigri gegn Keflavík.
Fyrsti heimaleikur Þórsara verður á laugardagskvöld og leikur þrjú í Keflavík þriðjudaginn 22. júní. Ef fleiri leiki þarf til verður leikur fjögur í Þorlákshöfn föstudaginn 25. júní og mögulegur oddaleikur verður í Keflavík sunnudaginn 27. júní.